Dauðaslys í umferðinni, fuglaflensa og SARS

Mig minnir að þegar ég bjó í Kína á árunum 2001-2006 hafi meðalfjöldi dauðaslysa (skv. opinberum tölum þarlendra stjórnvalda) verið á bilinu 300-350 þúsund, eða ca. eitt Ísland á ári. Kína er hins vegar fjölmennasta ríki heims með rétt tæpar 1400 milljónir íbúa, þannig að eitt Ísland á ári er svo sem ekki neitt neitt.

Til gamans má nefna að nokkur hundruð manns fórust úr "SARS" veikinni svokölluðu og þá var heimurinn á nálum yfir mögulegum faraldri. Viðhorfið í Kína var hins vegar á þá leið að það létust fleiri á hverju ári úr venjulegu kvefi eða í slysum tengdum klósettferðum og þetta væri nú ekkert stórmál.

Ég las eitt sinn skemmtilega smásögu eftir kínverskan höfund sem var eitthvað á þessa leið:

Um fimmleytið var ég á leið heim úr vinnu og þurfti að fara yfir breiðstræti sem var átta akreinar á breidd í hvora áttina. Græna gönguljósið var enn grænt, en var við það að verða rautt og ákvað ég því að staðnæmast. Í því sé ég glæsilega unga konu á pinnahælum þeysast út á götuna á harðaspretti, ákveðin í því að komast yfir. Á miðri leið dettur farsíminn hennar upp úr hliðartöskunni og skellur á jörðinni. Áhorfendur á gangstéttarbrúninni tóku andköf og voru spennt að sjá viðbrögð stúlkunnar: Skildi hún snúa við og ná í hann. Það gerði hún, beygði sig niður og greip símann. En í því sem hún reisti sig upp skall á henni jeppi á fleygiferð og kastaðist hún tugi metra og féll niður örend. Jeppinn hélt áfram sína leið. 

Síðar um kvöldið sit ég með félaga mínum við öldrykkju og segi honum þessa sögu. Hans svar: Já, hún var óheppin að vera ekki hundur. Ég hváði. Hann útskýrði: Ég var einmitt staddur á gangstéttarbrún við svipaða breiðgötu fyrir ekki svo löngu. Þar var ung kona með hund. Í því sem það er að koma grænt ljós á umferðina, stekkur smáhundurinn úr fangi eiganda síns og þýtur af stað út á götuna. Bíll sem kom á mikilli ferð snarhemlaði, rakst utan í annan bíl og olli miklu umferðarslysi, en hundinn sakaði ekki. 

Ég hváði enn. Hann hélt áfram. Já, veistu hvað svona smáhundar kosta? Það er ekkert grín að keyra yfir þessi grey, maður þyrfti að borga mörg hundruð þúsund í skaðabætur. Það kostar hins vegar ekkert að keyra yfir manneskju sem þýtur yfir á rauðu ljósi.

 Þetta segir margt um hvað mannslífið er oft ódýrt í Kína þar sem offjölgun er gífurlegt vandamál. 


mbl.is 21 lést í umferðarslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband