20.5.2008 | 23:06
líf og dauði, dauði og líf, hugræpa hins hugulsama herramanns
Meinfýsnir morðingjar með grímur hræsninnar spássera í vígastígvélum og veifa þjóðfánum. Vitibornir menn flýja í skjól siðmenningar og fordæma öldur ofbeldis í algjöru ölæði, brauð er daglegur dauði.
Vinir kætast, óvinir tárast, móðir skýlir barni, barn skýtur móður og múgæsingur magnast. Ég má en ekki þú, því ég er en þú ert ekki. Einfalt en óskiljanlegt. Rétt eins og offituvandamál vs. hungurmorð, réttur hinnar fáu vs. réttur hinna mörgu. Ef ekkert þú skilur þá tak í hönd mína og gakk, sjá: Hann er blindur orðinn. Þvílík eilífðar hamingja heimskan er, vitneskja er böl þeirra sem leita, bölvun þeirra sem skilja, dauði þeirra sem vita.
Okkur langar bara að elska en vitum ekki alveg hvað er þess vert að elska og hvernig. Ég elska þig en með skilyrðum þó. Ég skal bjarga þér ef þú bjargar mér og mínum fyrir hornið fornfræga þarna niðurfrá í gamla bænum þar sem spreyið skreytir veggi, glugga og gamlar húsmæður. Reykjavík, Reykjavík, þú yndislega borg, sem hefur alið á brjósti tralala og tútilú.
Dagdraumar hinna mörgu magnast dag frá degi þar til yfir flæðir í veruleikann og þá er fjandinn laus.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.